Slide background

UM ÍSFUGL

Ísfugl sláturhús og kjötvinnsla var reist árið 1979 á Reykjavegi í Mosfellsbæ og var þá í eigu hlutafélags nokkurra alifuglabænda. Þá hófst úrbeining og vinnsla kjúklingakjöts hérlendis, en fram að þeim tíma höfðu kjúklingar aðeins verið seldir frosnir í heilu lagi. Ísfugl er elsta starfandi fyrirtækið í greininni en forveri Ísfugls var lítið fuglasláturhús sem Jón M. Guðmundsson reisti á Reykjum árið 1962. Þar slátraði Jón fyrir sjálfan sig og nokkra aðra bændur. Eigendur Ísfugls frá árinu 2012 eru Jón Magnús Jónsson og Kristín Sverrisdóttir, bændur á Reykjum, en bændur Reykjabúsins hafa verið hluthafar frá upphafi.

Margur er knár þótt hann sé smár!
Nýrri, stærri og tæknivæddari kjúklingasláturhús og -vinnslur hafa risið á síðustu árum og veitt samkeppni. Ísfugl framleiðir nú um 20% af innlendu alifuglakjöti og er jafnframt minnsta fyrirtækið á því sviði á íslenska markaðnum. Ísfugl er nú með A-vottun frá MAST, fyrst alifuglasláturhúsa á landinu.

Gæði og ferskleiki vörunnar aðalatriðið
„Við leggjum áherslu á að gæði, hollusta og ferskleiki skili sér á disk neytandans. Við vitum að til þess að það takist þarf árvekni og natni allt framleiðsluferlið til enda. Við lítum svo á að þetta sé eilífðarverkefni hjá okkur í Ísfugli, því alltaf má gera betur,“ segja þau Jón Magnús og Kristín um meginverkefni og áherslur fyrirtækisins.

Íslenskir kjúklingar og kalkúnar
Ísfugl vinnur og selur eingöngu íslenska kjúklinga og kalkúna frá Ísfuglsbændum. Þeir nota engin fúkkalyf við eldi fuglanna. Bændurnir leggja inn kjúklinga og kalkúna til Ísfugls. Þar er fuglunum slátrað og kjötið unnið og selt ýmist ferskt eða frosið, soðið eða steikt og unnið undir vörumerki Ísfugls. Vörurnar eru seldar til verslana, veitingastaða og mötuneyta.

Þú sérð frá hvaða Ísfuglsbónda kjötið þitt kemur!
Ísfugl leggur ríka áherslu á að neytendur geti séð á umbúðum vörunnar frá hvaða búi hún kemur. Allt ferskt og óunnið kjöt frá Ísfugli er rekjanlegt til bónda. Um leið og unginn kemur úr egginu fær hann rekjanleikanúmer sem fylgir honum allt til enda. Nafn búsins kemur fram á umbúðum og hér á vefnum getur neytandinn aflað sér frekari upplýsinga um bóndann sem ræktað hefur fuglinn sem keyptur er hverju sinni.

Daglegt eftirlit með góðum starfsháttum
Ísfugl starfar undir ströngu eftirliti Matvælastofnunar og það gera bændur Ísfugls líka. Bændur þurfa að taka campylobaktersýni og salmonellusýni úr öllum eldishópum áður en þeir koma til slátrunar í Ísfugli. Annað sýni er síðan tekið í sláturhúsi til staðfestingar. Eftirlitsdýralæknir Matvælastofnunar hefur daglegt eftirlit með góðum starfsháttum og velferð fuglanna í Ísfugli.


Reykir-gamla

 

1542

 

6411

 

6967

 

Skráargatsmerkið
SkraargatÞað er keppikefli hjá Ísfugli að sem flestar vörur fyrirtækisins uppfylli kröfur samnorræna merkisins Skráargatsins og séu merktar með miða þess. Þetta er ætlað til að auðvelda neytendum að velja þá vöru sem uppfyllir skilyrði um góða samsetningu næringarefna. Skilyrðin kveða á um minni og hollari fitu, minni sykur og minna salt en í öðrum vörum í sama vöruflokki sem ekki uppfylla þau.

Illa samsett mataræði, offita og hreyfingarleysi er oft skilgreint sem helstu neikvæðu áhrifaþættirnir á lífsgæði og heilsu. Skráargatið fylgir markmiðum lýðheilsuyfirvalda um að fólk eigi að borða minni fitu, salt og sykur. Engar vörur sem innihalda sætuefni eða transfitusýrur yfir 2% af heildarfitumagni í unnum matvörum má merkja með Skráargatinu.

Skráargatið hefur verið notað sem matvælamerki í Svíþjóð síðan 1989 og er vel þekkt meðal sænskra neytenda. Það varð síðan að opinberu samnorrænu merki árið 2009 og hér á landi var það innleitt haustið 2013. Með því að festa viðmið fyrir ákveðnar fæðutegundir hefur Skráargatið orðið merki fyrir matvæli sem innihalda minni fitu, salt og sykur og meira af heilu korni og trefjum.

Matvælaframleiðendum er frjálst að nota Skráargatið, en vörur sem merktar eru með því verða að uppfylla ákveðin næringarviðmið sem gilda fyrir hvern flokk matvæla: Hreint kjöt má að hámarki innihalda 10 g af fitu í hverjum 100 g. Unnið kjöt eða kjöt sem inniheldur ábata má eingöngu merkja með Skráargatinu ef fita er minni en 10% í heildarmagni af kjöti og ef heildarmagn sykurs er að hámarki 5 g í hverjum 100 g.

Nánari upplýsingar á vef Skráargatsins.

1kjöt0200% kjöt
Margir kjósa að borða sem mest af hreinni fæðu, þ.e. mat sem ekki hefur verið unninn eða bætt við efnum sem auka geymsluþol eða hafa áhrif á bragð, lit o.fl. Fólki með fæðuóþol og -ofnæmi er oft ráðlagt að halda sig frá neyslu matvæla sem innihalda aukefni. Ekki er vitað hvaða áhrif langvarandi og mikil notkun aukefna hefur á heilsu. Þó má ekki gleyma því að mörg af þeim E-efnum sem nú eru notuð í matvæli eru náttúruleg og því alls ekki óholl. Salt og sykur eru vel þekkt efni til íblöndunar til þess að auka geymsluþol matvæla, en eru ekki efst á vinsældalistanum í dag.

Ábati í kjúklingavörum
Til að fá mýkt í kjúklingabringur þegar þær eru eldaðar og forðast þannig að kjötið ofþorni er settur í þær svokallaður ábati. Ábatinn er að uppistöðu til vatn, með sykri og salti blönduðu saman við. Miðað er við að ábati sé aldrei meiri en 10% af þyngd vörunnar hjá Ísfugli.